Ferill 413. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 860  —  413. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Njáli Trausta Friðbertssyni um gervihnattaleiðsögu.


    EGNOS-verkefni Evrópusambandsins (European Geostationary Navigation Overlay Service) er svæðisbundið stuðningskerfi gervihnattaleiðsögu sem eykur nákvæmni þjónustunnar og upplýsir notendur um hversu áreiðanleg leiðsögumerkin eru. Það er hannað til að þjóna notendum við krefjandi aðstæður, t.d. við leiðsögn flugvéla inn til lendingar á flugvöllum. Kerfið byggir á jarðstöðvum og útsendingu leiðréttingarmerkis um gervihnetti. Útbreiðslusvæði kerfisins takmarkast m.a. af staðsetningu jarðstöðvanna og gervihnattanna og er í grófum dráttum bundið við þátttökuríkin. Á útbreiðslusvæði kerfisins eykst nákvæmni í gervihnattaleiðsögu verulega. Verkefninu var heimilað að setja upp tvær jarðstöðvar á Íslandi sem varð til þess að landið liggur á vesturmörkum þjónustusvæðisins. Að undangengnum rannsóknum á gæðum EGNOS-leiðréttingarmerkja og áhættumati hefur Samgöngustofa heimilað hönnun og notkun APV-I-aðfluga, sem byggja á EGNOS-aðflugsleiðsögu, austan 19° vestlægrar lengdar, þ.e. austan línu frá Siglufirði til Víkur í Mýrdal. Ísland gerðist aðili að EGNOS-verkefni Evrópusambandsins árið 2021. Með aðildinni er stefnt að því að útbreiðslusvæði kerfisins nái til landsins alls. Verkefnisstjórnin hefur nú gert áætlun um stækkun útbreiðslusvæðisins vestur fyrir land og felur hún í sér uppsetningu þriðju jarðstöðvarinnar hér á landi, á Vestfjörðum, færslu gervitungls og hugbúnaðaruppfærslu. Ráðuneytið hefur tilnefnt Isavia ANS til að aðstoða verkefnisstjórnina við að reisa og reka jarðstöðina.

     1.      Hvað tefur útbreiðslu á EGNOS-leiðréttingu fyrir gervihnattaleiðsögu þannig að hún nái til alls landsins?
    Unnið er að staðarvali fyrir þriðju jarðstöðina hér á landi. Vinna við útboðsgerð hefst að staðarvali loknu en stefnt er á að skrifa undir samning í júní 2024 og að stöðin verði tilbúin í lok árs 2025. Þá hefst tímabil prófana á kerfinu. Isavia ANS mun síðan hanna flugferla og gera flugprófanir á þeim í samvinnu við Isavia ohf. og Isavia Innanlandsflugvelli. Innviðaráðherra tók upp málið við framkvæmdastjórn ESB og fór fram á að sett yrði upp varaáætlun ef tafir yrðu á verkefninu. Á fundinum kom fram að vinna við undirbúning þriðju jarðstöðvarinnar væri á áætlun og ESB myndi virða skuldbindingar af sinni hálfu við að koma stöðinni upp. Næsta skref væri að tryggja hýsingu stöðvarinnar á Íslandi í samræmi við staðarval. Hýsingin væri m.a. háð leyfisveitingum og réði nokkru um hvernig gengi að halda áætlun.

     2.      Telur ráðherra mögulegt að flýta samningum við Evrópusambandið þannig að full útbreiðsla náist fyrr en nú er áætlað?
    Samningum um aðild Íslands að EGNOS-verkefninu er lokið og er miðað við að útbreiðslusvæði EGNOS-kerfisins nái til landsins alls. Unnið er að þeim breytingum á kerfinu sem þörf er á til að ná markmiðinu. Ísland hefur lagt áherslu á að flýta verkefninu eins og kostur er og hefur framangreind niðurstaða náðst.

     3.      Er samstarf við Grænlendinga um stækkun EGNOS-útbreiðslusvæðis raunhæft?
    Ekki er nauðsynlegt að setja upp stöð á Grænlandi til að ná útbreiðslu EGNOS yfir Ísland. Ekki mun því reyna á samstarf við Grænlendinga í þessu máli.

     4.      Hvernig gagnast fullur styrkur á EGNOS-leiðréttingu til umbóta á aðflugsferlum við flugvelli sem ekki hafa ILS-aðflugsbúnað núna?
    Með stækkun útbreiðslusvæðis EGNOS-kerfisins vestur fyrir land má útbúa aðflugsferla á flugvöllum vestan 19° vestlægrar lengdar með lægri aðflugslágmörk (RNAV-aðflugsferlar með LPV-lágmörkum sem byggja á APV-I-hönnun) en nú er í boði. Nú þegar hafa slíkir ferlar verið innleiddir á nokkrum flugvöllum austan 19° vestlægrar lengdar, eins og sjá má í fylgiskjali. Kostnaður við slíka aðflugsferla er mun minni en við uppsetningu ILS-aðflugsbúnaðar og því verður hægt að lækka aðflugslágmörk á þeim flugvöllum með minni tilkostnaði en ella.

     5.      Hver er staða áætlunar- og sjúkraflugvalla með tilliti til krafna um hæfisbundna flugleiðsögu við flugvelli sem njóta blindflugsferla sem taka eiga gildi 25. janúar 2024 samkvæmt framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2018/1048?
    Staða innleiðingar RNP-aðflugsferla byggðum á GNSS er birt í PBN-áætlun Isavia ANS, kafla 7 C (sjá fylgiskjal). Áætlunin er gefin út á vefsíðu Isavia ANS og er uppfærð árlega.

     6.      Hver er staða RNP AR og A-RNP-flugferla við Akureyrarflugvöll vegna aðflugs úr suðri sem Isavia hefur skoðað alllengi?
    Eftir samráð við hagsmunaaðila var niðurstaðan að notendur flugvallarins óskuðu eftir A-RNP-flugferli úr suðri. Eins og sjá má í fylgiskjali er sá ferill á áætlun fyrir árið 2024. Ástæða þess að A-RNP telst hentugri er að töluverður kostnaður er vegna þjálfunar flugmanna við RNP AR-aðflugsferla.

Fylgiskjal.


www.althingi.is/altext/pdf/154/fylgiskjol/s0860-f_I.pdf